1. Almennt:
Sumarbústaðaeigendur og gestir þeirra skulu gæta þess að ganga vel um sumarbústaðasvæðið í landi Indriðastaða. Íbúar og gestir þeirra skulu ekki skilja eftir rusl á víðavangi, ekki valda spjöllum á gróðri og varast að trufla dýralíf. Ennfremur skal forðast að valda öðrum íbúum ónæði með hávaða.
2. Umferð á Skorradalsvatni og aðkoma að vatninu:
Umferð vélknúinna farartækja á Skorradalsvatni er almennt óheimil á milli kl. 22:00 að kvöldi og til kl. 10:00 að morgni. Þeir sem fara um vatnið á vélknúnum farartækjum skulu ávallt taka tillit til þeirra aðila sem lóðir eiga að vatninu og takmarka umferð og hljóðmengun nærri landi. Gæta skal fyllsta öryggis í meðferð farartækja á vatninu. Landeigendum ber að tryggja frjálsa umferð fótgangandi manna með vatnsbakka Skorradalsvatns.
3. Akstur torfærutækja:
Akstur og umferð torfærutækja, s.s. fjórhjóla, sexhjóla og mótorkrosshjóla er leyfð á vegum sumarbústaðasvæðisins en þó er notkun þeirra óheimil á milli kl. 22:00 að kvöldi og til kl. 10.00 að morgni. Notkun torfærutækja er óheimil utan vega og á göngustigum á sumarbústaðasvæðinu.
4. Ökuhraði:
Hámarkshraði ökutækja innan sumarbústaðasvæðisins er 30 km/klst.
5 Notkun kalda vatnsins:
Sumarbústaðaeigendur skulu gæta þess að kranar, lagnir og búnaður fyrir kalt neysluvatn sé ávallt í lagi frá stofnlögnum og að húsum þeirra. Vökvun lóða og gróðurs á lóðum skal takmarka mjög, þar sem vatnsgeymar hvers svæðis tæmast fljótt við slíka vatnsnotkun. Gæta skal þess að vatnskranar og tengibúnaður við lóðamörk séu rétt meðhöndlaðir, þannig að veitukerfið tæmist ekki af þeim sökum. Aðgæsla varðandi notkun kalda vatnsins á að tryggja öllum sumarbústaðaeigendum nægilegt kalt vatn.